Sálfræðiþjónusta

Fjarviðtöl meðferð og ráðgjöf

Fólk leitar til sálfræðinga af mismunandi ástæðum. Sálfræðingar eru tilbúnir til að taka vel á móti öllum veita ráð, hjálp, stuðning og meðferð. Í fyrstu er nauðsynlegt að afla upplýsinga, meta stöðuna og fara yfir væntingar, þarfir og markmið.

Um fjarviðtöl, meðferð og ráðgjöf

Kristín Linda sálfræðingur veitir öllum eldri en 20 ára sálfræðiþjónustu en hefur þó sérstaka reynslu af því að sinna þeim sem eru 40 ára og eldri. Hún býður bæði upp á sálfræðiþjónustu á sálfræðistofu sinni, Huglind í Reykjavík, og með fjarviðtölum í gegnum vefsvæðið Kara Connect.com Kristín Linda leggur áherslu á að mæta hverjum og einum þar sem þörfin er mest hverju sinni. Vinna með þá atburði, vanda og áskoranir sem sá sem til hennar leitar telur mest knýjandi á þeim tíma og veita faglega, hagnýta, raunhæfa, heilsubætandi og valdeflandi hjálp og bjargráð.

Fjarviðtöl: Kara Connect.is: Kristín Linda hefur heimild Landlæknisembættisins til að veita fjarheilbrigðisþjónustu í gegnum vefsvæði Kara Connect.is: karaconnect.com/is/
sem uppfyllir ýtrustu kröfur um öryggi og persónuvernd. Kristín Linda tekur vel á móti þeim sem vilja sækja sér meðferð, stuðning, ráðgjöf, aðstoð við stefnumótun í eigin lífi eða handleiðslu hvort heldur sem er staðbundna þjónustu á sálfræðistofunni í Reykjavík eða fjarviðtöl gegnum Köru. Sjá nánar undir: Panta tíma og fyrirkomulag.

Fjarviðtöl: Fjarviðtöl í gegnum Köru fara fram með hljóði og mynd í gegnum tölvuskjái. Margir er vanir þessum valkosti til samskipta í nútíma samfélagi og fellur vel að nýta þessa leið. Meðferð og aðferðir eru með sama hætti og lúta sömu siðareglum og trúnaði og sé mætt í sálfræðitíma á sálfræðistofu. Fjarviðtöl henta vel þeim sem eiga illa heimangengt, þeim sem búa fjarri meðferðaraðila, fólki sem vill spara tíma sem annars færi milliferðir og mörgum fleirum.

Margskonar vandi: Í raun getur ástæða komu verið allt milli himins og jarðar en nefna má sem dæmi: Vanlíðan, depurð, óánægju, sjálfsmyndarvanda, tómleika, vonleysi, missi, sorg, áhyggjur, kvíða, áföll, streitu, þrot og kulnun. Samskiptavanda, vansæld og erfiðleika, á vinnustað, heimili, við vini, stórfjölskyldu, börn eða maka. Erfiða lífsviðburði, veikindi, sjálf sín eða sinna, fíkn og neyslu í fjölskyldu, framhjáhald, svik, skilnaði, gjaldþrot, höfnun, einangrun og einsemd.

Stefnumótun og uppbygging: Kristín Linda hefur sérhæft sig í jákvæðri uppbyggingu og stefnumótun í eigin lífi. Sífellt fleiri kjósa að leita sér faglegar aðstoða við eigin stefnumótun, forgangsröðun, ákvarðanir og lífsstíl. Hvort sem er í önn dagsins eða þegar staðið er á einn eða anna hátt á krossgötum, gengið í gegnum tímamót og breytingar.

Handleiðsla: Í gegnum árin hefur Kristín Linda sinnt margskonar handleiðslu fyrir einstaklinga. Faglegri handleiðslu í starfi og samskiptum á vinnustað. Handleiðslu gegnum erfiða lífsviðburði og verkefni sem fólk tekst á við utan vinnu svo sem í sjálfboðaliðastarfi, hópum, félögum, stórfjölskyldu eða áhugamálum. Sem dæmi má nefna að fjöldi skólastjórnenda, kennara, heilbrigðisstarfsfólks og fagfólks sem starfar í félagsþjónustu hefur nýtt sér handleiðslu Kristínar Lindu. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að Kristín Linda hefur réttindi til að stafa bæði sem grunnskóla og framhaldsskólakennari og hefur starfað í framhaldsskóla við sálfræðikennslu.

Meðferð og aðferðir: Kristín Linda hlaut starfsleyfi frá Landlækni sem sálfræðingur/psychologist árið 2013 og hefur starfað við fagið síðan þá og fékk starfsleyfi frá Landlækni til að stunda fjarheibrigðisþjónustu árið 2023. Sjá nánar undir Sálfræðimeðferð í fjarvinnu. Hún stundar ár hvert markvissa endurmenntun og fylgist með því nýjast á fræðasviðinu. Kristín Linda nýtir gagnreyndar meðferðir og aðferðir sem sýnt hefur verið fram á í rannsóknum að virka. Sem dæmi má nefna: Hugræn atferlismeðferð, ACT Acceptance and committment therapy/Sátta og stefnumótandi meðferð, Samkenndarmeðferð/Self Compassion therapy, Núvitund og Jákvæða sálfræði.

Kara Connect - Fjarviðtöl - Hvernig ber ég mig að?

Kara Connect er vottaður hugbúnaður fyrir fagaðila til þess að tengjast skjólstæðingum sínum og veita meðferð og þjónustu með öruggum og sveigjanlegum hætti í gegnum fjarfundarbúnað. Kara fylgir ströngum reglum Evrópusambandsins um gagna- og persónuvernd, GDPR, í ystu æsar. 

Óskir þú eftir að bóka fjarviðtal gegnum Köru Connect þá þarft þú sem skjólstæðingur fyrst að stofna aðgang hjá Köru. Þegar búið er að stofna aðgang er einfalt að bóka tíma í gegnum vefviðmót Köru með því að skrá sig inn og velja þar tíma sem hentar hjá meðferðaraðila. Þú færð svo boð um viðtal með tölvupósti sem hægt er að samþykkja eða hafna. 

Einnig er hægt að bóka fjarviðtal með því að senda tölvupóst á Kristínu Lindu á kristinlinda@huglind.is.

Það er heillandi að rækta sjálfa sig ævina á enda.

Scroll to Top