Sjálfssinnun

Til að byrja með er rétt að viðurkenna að orðið SJÁLFSSINNUN er líklega nýyrði þó orðalagið að sinna sjálfum sér sé alþekkt. Mér finnst bara þetta orð svona samsett í eitt alveg smellpassa fyrir þá mikilvægu þörf að sinna um sjálfan sig.

Sjálfssinnun

Hvernig sinnir þú þér?

Til að byrja með er rétt að viðurkenna að orðið SJÁLFSSINNUN er líklega nýyrði þó orðalagið að sinna sjálfum sér sé alþekkt. Mér finnst bara þetta orð svona samsett í eitt alveg smellpassa fyrir þá mikilvægu þörf að sinna um sjálfan sig. Það getur auðvitað átt við á mjög mörgum sviðum en SJÁLFSSINNUN í okkar spjalli, mínu og ykkar núna í september í LÍFSSTÍL LINDU, snýst að þessu sinni um afmarkað efni. Stundir með sjálfum sé í byrjun og lok dags í einrúmi fyrir framan spegilinn þinn.

Eins og auglýsingar minna okkur á er svokallað tax free reglulega í gangi í verslunum, til dæmis núna nýverið. Það er skemmst frá því að segja að það hringir bjöllum í höfðum margar sem skanna fránum augum yfir snyrtivörustöðuna og skeiða í snyrtivörudeild verslunar til að nýta sér afsláttinn og fylla á lagerinn.

En hvað vildi ég sagt hafa, sjálfur sálfræðingurinn?

Jú sko sjáum til, hvað sem okkur finnst um undur í krukkum og dósum sem lofa að fletja út hrukkur, lyfta undirhökum, blása út varir eða lengja augnahár þá getur sjálfssinnun á þessu sviði sannarlega bætt líðan okkar. Ef við horfum af þakklæti, virðingu og blíðu á andlitið sem birtist okkur í speglinum á hverjum degi.

Gerum við það ekki örugglega?

Þá er bara dásamleg sjálfssinnun að velja sér mjúkt, blíðlegt og huggulegt krem til að strjúka yfir okkar eigin andlit. Athöfnin fær sérstaklega nærandi vægi ef við virkilega hugsum um leið um þá gjöf sem það er að geta stigið lífsdansinn einmitt svona eins og við erum einn daginn enn. Svo finnst mér kjörið að nýta afganginn af kreminu fína, með sólvörninni og öllu, til að strjúka yfir handarbakið og fingurnar sem halda með mér út í daginn.

Þeim mætti nú alveg þakka með nærandi kremi, fingrunum okkar, ekki satt?

Svo er það bara persónubundið hvort við kjósum að leika við okkur með litum til dæmis í augnlínum, skuggum, kinnalitum eða varalitum eða ekki. En endilega eigum stund með sjálfum okkur fyrir framan spegilinn í rósemd á hverjum morgni við SJÁLFSSINNUN áður en haldið er út í daginn.

Gefum okkur tíma til að hlúa að okkur af natni og virðingu í rósemd og núvitund fyrir framan spegilinn.

Það er frábært veganesti út í daginn og á við bæði um karla, konur og öll kyn. Sömuleiðis er nærandi kvöldsiður að eiga rólega, huggulega dekurstund með sjálfri sér fyrir fram spegilinn sinn að kvöldi, sinna sér, frekar meira en minna.

Þakka sér fyrir daginn og gefa sjálfum sér augnsamband og bros áður en gengið er til náðar.

Til viðbótar er kjörið að skrifa hvetjandi orð til sjálfs sín á fallega miða og koma fyrir á speglinum í svona viku til að minna sig á. Til að hjálpa sjálfum sér að stilla sína sálarstrengi áður en haldið er til móts við daginn. Á miðanum getur staðið allt mögulegt, eftir því hver þörfin er hverju sinni. Til dæmis bara, mættu þessu bara með ró, ekki hika við að beita þér í dag, í þessari viku ætlar þú að stunda útivist daglega, gefðu þér tíma fyrir nánd með þínum nánustu. Eftir viku eða tvær hættir miðinn að virka en þá er að búa til nýjan sem grípur athyglina og hjálpar þér að móta lífsstílinn þinn að þínu vali.

Við ættum öllu virkilega að gefa okkur tíma í margskonar SJÁLFSSINNUN það bætir bæði líðan og lífsgæði.

Nýjustu greinarnar

Á döfinni

Scroll to Top