Danski, eða ættum við að segja norræni, lífsstíllinn að hygge, hefur verið afar vinsæll síðustu árin. Bókin The little book of hygge, the Danish way to live well, eftir Meik Wiking framkvæmdarstjóra Hamingjurannsóknarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn vakti athygli um heim allan þegar hún kom út árið 2016 og í kjölfarið fylgdi fjöldi bóka um efnið. Málið er að fleiri og fleiri átta sig einfaldlega á því að leitin að frama, auði, flottheitum, fullkomnu útliti eða sigrum í einhverskonar keppni skapar ekki hamingjuna og þá er ráð að pæla í hygge að dönskum sið.
Huggulegur lífsstíll snýst um að vera sjálfum sér og sínum góður, að hlúa að sér og að skapa notalega nærandi tilveru fyrir sig og sína. Hygge byggir á einfaldleika, friðsæld, notalegheitum og góðvild en það er hvorki naumhyggja, deyfð né bara að kasta sér í sófann. Grunnurinn að hygge er virkni, að skapa notlegar aðstæður, stundir og upplifanir. Lífsstílnum fylgja kertaljós, mörg kertaljós, matur og matargerð, notalegir drykkir, mjúkur fatnaður og teppi. Notlega heimili og vakandi hugsun um að gera stundir lífsins huggulegar fremur en bara að leyfa þeim að vera hversdagslegum. Huggulegheit snúast ekki eingöngu um að sitja einhversstaðar og hafa það gott heldur líka að gera eitthvað sér til ánægju í rólegheitunum, einn eða með öðrum. Nú býð ég þér að skoða níu lykilatriði sem ég hef tekið saman og eru aðal málið í þessum notalega lífsstíl.
Níu lykilatriði til að hlúa að þér og þínum og hafa það hyggeligt!
- Orðræðan þín skiptir máli. Veldu að tala um huggulegheit, það að hafa það huggulegt, af hlýju og virðingu með bros á vör af því að það er virkilega eftirsóknarvert. Orðaval – orðin þín hafa áhrif bæði á þig sjálfa, þá mynd sem aðrir hafa af þér og alla sem heyra orðin þín.
- Að hygge snýst um að hlúa að sjálfum sér og skapa nánd við sig. Að njóta einveru, eða njóta huggulegheita með fáum án streitu og spennu.
- Kveiktu á kertum meðvitað með viðhöfn, til að skapa huggulega, hlýlega stemningu og merkja stundina huggulegheitum. Flestir danir, um 80%, kveikja á þremur eða fleiri kertum í einu, virkilega nýttu og njóttu lifandi kertaljósa í öruggum kertastjökum.
- Njóttu þess að koma þér upp hyggefötum að dönskum sið. Notalegu fötunum þínum sem eru hlý, mjúk og falleg og á allan hátt þægileg og notaðu þau. Klæðnaði sem er til þess ætlaður að skapa jákvæða, notalega afslappaða tilfinningu í líkama og sál. Hlý, mjúk peysa, sjal og sokkar, til dæmis. Skiptu alltaf um föt eftir vinnu eða erfið verkefni, klæddu þig bókstaflega úr vinnunni það er bjargráð gegn streitu.
- Nýttu mat og drykk til að skapa sælu, ánægju og gleði á meðvitaðan afslappaðan og nærandi hátt. Taktu eftir bragðinu, stemningunni og sælunni! Um 90% dana telja heita drykki tilheyra því að hafa það huggulegt.
- Á heimilinu er mikilvægt að eiga sitt huggulegahorn. Útbúðu það vel fyrir þig. Góðan stól, teppi til að vefja sig inn í, lampa til að lesa við aðstöðu til að hlusta á tónlist, lesa eða njóta handavinnu. Best er að geta horft á eitthvað fallegt og kertaljós úr besta stólnum sínum. Þar þarf líka að vera hægt að leggja frá sér fallega bollann sinn og koma fyrir lítill skál fyrir dásamlega súkkulaðimola. Tryggðu þér vinnuljós þegar við á en njóttu líka kertaljósa.
- Skapaðu líka huggulegheit í eigin lífsstíl útivið og í vinnunni. Veltu því fyrir þér hvernig þú getur gert útivist huggulegri til dæmis að setjast á bekk eða stein með ilmandi te í krús. Skapað huggulegar stundir og umhverfi á vinnustað, einn eða með öðrum.
- Hygge, huggulegur lífsstíll snýst um góðvild, virðingu og rósemd en líka virkni og að koma því á og ákveða að þú munir sýna þér og þínum góðvild og hlýju og í verki, dekra við þig með hygge. Að þakka fyrir að vera til, einmitt núna með því að taka eftir lífinu og njóta þess af gleði til fulls á einfaldan, spennulausan og notalegan hátt af natni og þakklæti.
- Temdu þér að nýta HYGGE sem leiðarljós í eigin lífi Að hugsa, hegða þér og hafa það huggulegt á virkan hátt. Það er jú svo huggulegt og nærandi og styður í raun og sann við heilsu þína, gleði og hamingju.