Á meðan hún er lifandi í okkur leitin að tilgangi lífsins er vonin vakandi og virk og ævintýrin eiga tækifæri. Að undanförnu höfum við getað fylgst með ótal ævintýrum verða að veruleika þegar allskonar íþróttafólk víðsvegar að úr heiminum upplifir að keppa á Ólympíuleikum. Þeirra á meðal íslenski afreksmaðurinn, sundgarpurinn Anton Sveinn Mckee sem að loknu sínu síðasta ólympíusundi mælti hvatningrorð til áheyrenda, þau vöktu athygli mína.
Anton Sveinn hefur nú keppt á fjórum Ólympíuleikum í röð, fyrst árið 2012 og síðast núna í lok júlí. Án þess að orð hans séu návæmlega höfð eftir hér sagði Anton Sveinn eitthvað á þá leið að hann væri stoltur af að hafa gefið sjálfum sér tækifæri til að láta reyna á drauminn og sjá hvað væri hægt. Að vegferðin hafi verið algjört ævintýri. Að það væri ekki hvort þú næðir að uppfylla drauminn með einhverju ákveðnu markmiði, sem skipti máli, heldur manneskjan sem þú yrðir á leiðinni að markmiði draumsins og upplifunin í djúpu dölunum og hæðunum á meðan á vegferðinni stæði. Hvatninarorð hans voru, eltið ykkar drauma, sama hverjir þeir eru. Við erum öll dauðleg og höfum bara takmarkaðan tíma, svo stökkvið út í djúpu laugina og eltið draumana ykkar! Með töfrandi blik í auga hvatti þessi hrífandi afreksmaður okkur til að láta vaða og stinga okkur í djúpu laugina!
- Gjöfin, sem hann gaf þeim sem eftir tóku, var leyfið sem hann hafði gefið sjálfum sér til að láta á reyna. Hvatningin um að gefa sér alvöru tækifæri og sjá hvað úr geti orðið.
Lítum núna strax í eigin barm, hvað býr í huga þér? Hver er draumurinn þinn? Eins og Anton Sveinn sagði felst galdurinn ekki í því hvort útkoman nær einhverju ákveðnu markmiði. Nei, ævintýrið snýst um að helga sig draumnum. Leggja af stað í vegferðina og vera í henni meðan ævidagarnir líða. Lifa sína vakandi daga á vegi eigin draums, bæði dalina dimmu og sigurhæðirnar björtu.
- Að leyfa sínum eigin draumi að vera sinn áhrifavaldur og áttaviti og upplifa hvernig manneskja þú verður af vegferðinni.
Draumarnir okkar geta svo sannarlega verið allt milli himins og jarðar og ef við hugsum okkur um höfum við flest fylgst með fólki sem hefur, stokkið í djúpu laugina. Tekið ákvörðun um að gefa sér tækfæri til að láta reyna á draum og gert það af öllu hjarta. Við höfum sérð hvernig persónan breytist í vegferðinni, verður önnur en áður, þroskast, þróast og blómstrar á nýjan hátt. Hugsunarhátturinn, forgangsröðin, fasið, framgangan öll, orðavalið, ásýndin, venjur og viðfangsefni breytast á draumaleiðinni.
- Allt hefur áhrif einkum við sjálf. Ef við höfum það að leiðarljósi að upplifa drauminn, hugsum og hegðum okkur samkvæmt því, mun draumaleiðin hafa áhrif og breyta okkur.
Fimmtuga stirða konan sem stóð upp úr sjónvarpssófanum og ákvað að láta gamla drauminn rætast til fulls að verða menntuð jógakona. Draumurinn teymdi hana í gegnum ótal fræðirit, æfingar og kynni við nýtt fólk, staði og hugmyndir, hérlendis og erlendis. Vegferðin breytti þekkingu hennar og sýn, klæðaburði, fæðuvali, líkama og hreyfingum. Karlinn sem gekk inn í eftirlaunaárin með drauminn sinn í fanginu, glænýja harmoniku. Hann hafði aldrei snert á hljóðfæri eða numið nótur en hefur núna spilað nær daglega á nikkuna í tíu ár. Takturinn í göngulaginu er breyttur, styttra í brosið og glettnina og hugurinn litaður heillandi tónum og laglínum. Nýjir vinir og upplifanir á harmonikuhátíðum og ótal nýjar áskoranir á sviðinu með nikkuna í fanginu hafa verið hans sundmót. Hér á síðum, Lifðu núna, má sjá ótal dæmi um fólk gefur sér tækifæri til að lifa drauminn.
- Hver er þinn draumur? Einmitt núna?
Listin að lifa fest ekki í því að feta eingöngu örugga stíga, að vinna aðeins að því sem við erum leikin í og vitum að tekst. Það er ekkert kjánalegt, óviðeigandi eða aumt við að taka ákvörðum og leggja af stað á vit draumsins sem þú veist ekki hvernig muni rætast. Þvert á móti felst styrkurinn í því að stinga sér í djúpu laugina, alveg sama þótt þú munir ekki ná einhverju sérstöku markmiði eða árangri. Nákvæmlega eins og Anton Sveinn benti á felst hetjuskapurinn, djörfungin, árangurinn og gæfan í að upplifa draumaleiðina, sáttur og þakklátur við sjálfan sig, að hafa reynt hvað væri hægt! Hvort sem maður kemst í úrslit eða ekki, takk kærlega Anton Sveinn Mckee.
Að fara í ferðalag drauma sinna er ævintýrið mikla, að gefa sér tækifæri. Að stinga sér og láta á það reyna hvað gerist og hvernig maður sjálfur verður, breytist, þroskast og þróast á meðan á vegferðinni stendur. Það er ekki eftir neinu að bíða!