Heilinn okkar er einstakt verkfæri og algjörlega frábært að geta virkilega hugsað og líka hugsað um hvað við erum að hugsa um. En … stundum getum við hreinlega hugsað eitthvað alveg í drep. Þannig að eitthvað sem var dásamlegt verður það ekki lengur. Eitthvað sem var í lagi verður bilað, eitthvað sem var nóg hættir að vera það. Eitthvað sem var fallegt verður gallað, eitthvað sem var skemmtilegt verður kjánalegt. Eitthvað sem við ætlum, langar til, dreymir um, verður flókið og óaðgengilegt í flækjum hamlandi ofhugsana. Hugsum aðeins meira um þetta!
- Stundum getum við hugsað svo mikið um hvernig við erum að okkur finnst við vera einhverskonar vandamál eða gölluð vara. Myljum niður sjálfsvirðinguna og sjálfsmyndina og vansældin seitlar inn í sálina. Við hættum að hafa okkur í eitt eða neitt, þægindahringurinn okkar verður minni og minni og tilveran einhæf og smá.
- Eða við hugsum svo mikið um hvernig öðru fólk á förnum vegi finnst við vera að við minnkum okkur, drögum okkur í hlé. Laumumst bara áfram með höfuð undir væng, reynum að hverfa inn í umhverfið eða fjöldann og vera sem minnst áberandi. Þurrkum út einkenni okkar og persónuleika, þorum ekki að taka pláss og blómstra. Þannig verður hjörð mannanna einsleit eins og maurar í lest og tilveran grá og tækifæralaus.
- Stundum hugsum við svo mikið um viðfangsefni og verkefni að þau verða aldrei að veruleika, við hugsum þau út af borðinu. Svo líður tíminn og óskir okkar, þrár og draumar hverfa í tímans haf. Hugsanir okkar flæktust fram og aftur svo ekki varð úr. Við hörfuðum, hættum, við slepptum, létum hjá líða, og já svo bara er allt liðið hjá, farið búið.
- Hugsanlega hugsum við svo mikið um að vinum okkar líki líklega ekki við okkur þannig að við týnum tengslunum, hugsum þá út úr lífi okkar. Leggjum árar í bát neikvæðra hugsana og hringjum ekki, sendum ekki skilaboð, lítum ekki við, hugsum okkur út úr tækifærum til tengsla. Svo laumast depurðin og einmannaleikinn að eins og villandi þoka á heiðinni, leggst yfir hugann og við erum villt í eigin hugsunum, finnum ekki lengur í okkur sjálfum traustið og trúna á töfra vináttunnar.
- Stundum hugsum við svo mikið um það sem gæti farið í vaskinn í framtíðinni að við kæfum drauma okkar. Hvort sem þeir snúast um eitthvað sem okkur dreymir um að setja á dagskrá núna í ágúst, haust, næsta vetur eða næsta ár. Æ, ætli það borgi sig nokkuð. Best að sigla bara áfram í sama farinu, jafnvel þó það sé orðið leiðigjarnt. Einu sinni langaði mig til þess en svo bara varð ekki úr því!
Það er magnað að geta hugsað, hæfilega mikið, og heillandi að temja eigin hugsanir þannig að þær séu sem allra oftast hjálplegar, uppbyggilegar og til gagns fyrir okkur, mannlífið í samfélaginu okkar og jörðina sjálfa. Nú, en ef allt stefnir í flækju og ofhugsanir er um að gera að eiga í pokahorninu bjargráð sem fyrstu hjálp, til að ráða við sig og beina hinum magnaða heila frá því sem dregur niður, dregur úr, hamlar. Þá getur verið gott að setja inn truflun, fara bara til dæmis í langa sturtu, baka köku, eða púsla, laga til í hnífaparaskúffunni eða setja á góða tónlist og dansa eins og villingur á stofugólfinu.
Tökum okkur og lífinu sjálfu ekki of hátíðlega. Verum skynsöm en gætum okkar á ofhugsunum, hugsanaflækjum og hamlandi hugsunum sem festa okkur. Gerum tilraunir, prófum bara, látum á það reyna, leyfum okkur, látum rætast draum!