Bændablaðið júní 2023: Lífsgæði: Fjölskyldulífið

Íslenskir bændur eru fjölbreytt flóra dugmikilla sjálfstætt starfandi einstaklinga. Hver og einn hefur valið sína leið til að lifa og starfa en þó má ætla að flestir bændur búi og starfi á sama stað.

Bændablaðið júní 2023: Lífsgæði: Fjölskyldulífið

Lífsgæði: Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur

Fjölskyldulífið
Íslenskir bændur eru fjölbreytt flóra dugmikilla sjálfstætt starfandi einstaklinga. Hver og einn hefur valið sína leið til að lifa og starfa en þó má ætla að flestir bændur búi og starfi á sama stað. Það er að segja að þeir sem hafa landbúnað sem aðalstarf eigi heima á bújörðinni þó þeir séu ef til vill einnig í öðrum störfum utan bús.

Fjölmargar útfærslur eru til af samþættingu landbúnaðarstarfa við önnur störf, einstaklingar standa einir fyrir búi og starfa ýmist einir eða með starfsfólki og tengt og ótengt fólk gengur til verka á sama búi. Í sumum tilfellum búa hjón eða par saman á jörð og starfa bæði eingöngu við búið nú eða bæði starfa að hluta utan bús. Í öðrum tilvikum starfar annar aðilinn við búið en hinn er einnig í öðru starfi, hlutastarfi eða fullri vinnu við annað.

Sá einstaklingur á þá heimili sitt á vinnustað maka síns sem er í raun nokkuð sérstök staða.

Það felast bæði dásamlegt tækifæri og ógnanir í því að búa og starfa á sama stað. Það er nærtækt að skjótast í vinnuna og næsta víst að verkefnin eru næg. Vinnutíminn og vinnudagar eru ekki rammaðir inn með vinnutímaskilgreiningu eða stimpilklukku og vinnan flýtur því auðveldlega yfir lífið. Það getur verið gaman þegar unnið er sjálfstætt, verkin eru skemmtileg og árangurinn gefandi. Svo er líka skemmtilegt og frjálst að geta sleppt vinnunni tíma og tíma til dæmis á miðjum virkum vetrardegi.
Sjálfstætt starf, búseta á vinnustað, sýnilegur árangur, frelsi og sveigjanleiki, allt eins og draumur í dós. Já, það er sko alveg rétt!

En þar með er ekki í öll sagan sögð. Þeir sem eru hluti af fjölskyldu, eiga maka og ef til vill líka börn, þurfa að huga að því af alvöru hvernig þeim gengur að samþætt og skilja á milli starfs og fjölskyldulífs. Já, einmitt bæði samþætta og skilja á milli. Það er gefandi og skemmtilegt að fjölskyldan sé saman að fást við verk á búinu og þannig sé fjölskyldulífið og starf bóndans samþætt. En það er líka alveg nauðsynlegt að látta ekki vinnu bóndans við búið lita allt fjölskyldulífið og heimilislífið, það þarf líka að skilja á milli. Þetta er sérstaklega áríðandi þar sem annar aðilinn starfar utan bús. Þá þarf hann að mæta þar til vinnu og ef um fullt starf er að ræða hefur hann klárað sinn vinnutíma þegar hann heim kemur. Þá eru verkunum á búinu ef til vill ekki lokið og stundum liggur í loftinu krafa um að mæta þar til vinnu, eftir fullan vinnudag við annað, nú eða hún er bara skýr og ljós sérstaklega á álagstímum búsins. Ef til vill ríkir um þetta fyrirkomulag góð sátt en gefum okkur það ekki. Athugum að þó góð sátt hafi verið einu sinni er ekki hægt að ætlast til að svo verði um aldur og ævi, bæði fólk og aðstæður breytast.

Veltu því fyrir þér í fullri alvöru núna í vikunni hvort þú þurfi að endurmeta og skilja á milli eða samþætta starfið þitt sem bóndi og fjölskyldulífið á nýjan hátt?

Tækifærið er núna. Ekki stinga höfðinu í sandinn, skella þér í vinnugallann og fara út að dreyfa skít. Ekki nota gömlu tuggurnar til að loka á makann þegar hann óskar eftir sameiginlegum frístundum, þú ert íslenskur bóndi, alvöru garpur, þú getur breytt ef þú vilt! Skoðaðu málið heiðarlega og markvisst því að rannsóknir sýna að það hefur veruleg áhrif á heilsu, hamingju og velferð fólks að ná sátt um samspilið á milli vinnu og fjölskyldulífs. Gerðu það af virðingu við sjálfan þig og þá sem þú elskar mest.

Gerðu samning við þig og þína um samþættinguna og skilin á milli heimilis og bús.

Um hluti eins og sameiginlegan frítíma í klukkustundum um helgar, eða um heilar fríhelgar og um lengri frí yfir árið talin í dögum eða vikum. Það er engin ein uppskrift rétt en ekki bara láta tíman líða og samskiptin við mikilvægast fólkið í lífi þínu reka á reiðanum! Það er yndislegt að vera saman við störf á búinu, sjá flekkinn breytast í ótal rúllur, dást að ásetningsgimbrunum og sægráu kvígunni sem loksins kom. En það er líka gaman að vera saman við eitthvað allt annað og skapa öðruvísi minningar.

Við þurfum öll að virða okkur sjálf, okkar eigin lífsstíl, heilsu og hamingju. Það er heillandi að njóta þess að vera bóndi en líka að vera maki og foreldri og það þarf að rækta ástarlífið eins og tún, bera á, hlúa að, girða fyrir vanda og vera vakandi.

Rannsóknir sýna að ef við ræktum og hlúum að okkar nánustu samböndum bætir það okkar eigin geðheilsu og þeirra sem í hlut eiga. Samskipti og sambönd skipta verulegu máli fyrir lífsgæði. Gefðu þér tíma til að hlúa að þér og þeim sem þú elskar mest, ekki láta þá bíða, það kemur ekki betri tími seinna, farðu úr vinnugallanum og elskaðu í verki núna!

Heimildir: S. Lyubomirsky, J. W. Santrock

Nýjustu greinarnar

Á döfinni

Scroll to Top